Hið nýja greiðsluþátttökukerfi lyfja

Nokkrir góðir punktar um nýtt greiðsluþátttökukerfi SI. 

Greiðsluþátttaka SI er á sumum lyfjum. SI hafa ekki gefið út hvaða lyf það eru. SI greiðir viðmiðunarverð á sumum lyfjum. SI hefur ekki gefið út hvaða lyf það eru. Og svo eru lyf líka án greiðsluþátttöku en þeir hafa heldur ekki gefið út hvaða lyf það eru.  Þannig að reiknivélar gefa  fólki ekki rétt dæmi.   Er þetta í lagi ?

SI vill að ef apótekið gefur mér afslátt þá fái það sömu krónutölu í afslátt. Af hverju ? Eru ekki apótek séreignafyrirtæki ?  Hvers vegna á SI  að skipta sér af þessu ?

SI vonast til þess að apótekin bjóði uppá greiðsludreifingu. Hvers vegna eiga apótekin að taka upp greiðsludreifingu ?  Þjóðin lagði kreditkortunum og hætti að kaupa flatskjái og sófasett á raðgreiðslum. Á nú að fá kortin aftur og setja lyfjakaup á raðgreiðslur ?

Samkvæmt lögum er apótekinu bannað að opna pakkningar og afhenda part úr pakka.  SI vonast til þess að lyfjaframleiðendur breyti pakkastærðum svo apótekin geti afgreitt minni pakkningar. Hefði ekki mátt skoða þetta áður en nýja kerfið var innleitt. ??

SI segist vonast til þess að lyfseðlakerfinu verði breytt svo hægt sé að ávísa lyfjum fyrir mánuð í senn. Hefði ekki mátt breyta þessu áður en nýja kerfið var innleitt ??

Svo eru það lyfjaskírteinin sem hafa verið gefin út. Sum halda gildi sínu þannig að SI greiðir áfram ákveðna upphæð í lyf en önnur skírteini detta út.  Hvað gerist svo þegar lyfjaskírteinin sem áfram eru í gildi við breytinguna renna út ?  Þetta þarf að skíra betur út.

Hvers vegna er ekki hægt að fá að vita hvað lyfin kostar ? Í sumum tilfellum hafa apótekin ekki verðið og SI ekki heldur. Hvers vegna ? Er ekki rétt að við sem kaupum lyfin fáum að vita hvað þau kosta áður en við kaupum við gætum e.t.v sparað með því að velja frekar lyf með greiðsluþátttöku.

Hvers vegna mátti ekki kynna reglurnar fyrir þeim sem þarf að vinna með þær, bæði apótekum sem og starfsmönnum SI áður en þær taka gildi ? Hvers vegna fá læknar ekki upplýsingar ? 

Hver greiðir kostnaðinn þegar fólk getur ekki keypt lyfin sín en veikist og lenda á sjúkrahúsi ? Fólk getur ekki komið með lyfin sín þar sem þau eru ekki til en fólk hefur þurft að skaffa sín lyf á sjúkrahúsi sjálft í mörg ár.  Er það greitt með þessum 250 milljónum sem ríkið græðir á þessum greiðsluþátttöku breytingum ?

Fínt að breyta reglum TR fyrir þá sem hafa lágar tekjur og verða fyrir miklum kostnaði vegna lyfja, læknisheimsókna og þjálfunar. En áttið ykkur á því að fólk þarf að greiða fyrir lyfin sín fyrst.  Og ef það á ekki peningar til að kaupa lyfin þá getur það ekki sótt um styrk/endurgreiðslu hjá TR.

Svo eru það þakskírteinin.  Þegar svokölluðu þaki er náð ( hámarksupphæð skv reglum ) getur læknir sótt um þakskírteini.  Þá þarf að finna lækni, greiða fyrir heimsókn/greiðann og bíða eftir að SI afgreiði  skírteinið.

Mjög mörgum spurningum er enn ósvarað.  Í rúman mánuð hafa apótekin sagt fólki að sækja þau lyf sem það getur sótt fyrir 4 maí því fólk muni greiða hærri lyfjakostnað eftir 4 maí.  Er þetta dulbúin hækkun á lyfjaverði ?

SI segir að svona sé kerfið í Danmörku og Svíþjóð. Já rétt er það að hluta til.

Við getum verið þakklát fyrir að búið er að endurskoða þetta kerfi því þá geta stjórnmálamenn snúið sér að öðru. En  ég hefði viljað kynningu fyrir almenning ekki einhvern smá bækling sem segir nánast ekkert. Ég hefði viljað að þetta lægi allt saman ljóst fyrir. Ég hefði viljað að persónuleg reiknivél inná sjukra.is væri tilbúin. Ég hefði viljað að starfsfólk SI væri tilbúið.

Ég hefði viljað að langveik börn nytu sérstakra kosta í þessu öllu saman. Þau taka jú lyf. Þurfa þjálfun og ýmislegt annað.  Það má heldur ekki gleyma að SI hefur ítrekað hafnað umsókn foreldra vegna ummönnunarbóta.  Ósanngjarnt !

Stjórnmálamenn hefðu aldrei leyft okkur þjóðinni koma svona fram við sig. Þeir hefðu gargað sig hása þar til framkvæmdinni hefði verið frestað

En nú er lag ekki satt ? Það er korter í kosningar. Hverja viljum við kjósa ?

 


Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband