18.4.2013 | 12:04
Of margar gleðitöflur ?
Undanfarna daga/ vikur hafa stjórnmálamenn, starfsmenn Sjúkratrygginga Íslands, ráðuneytisstarfsmenn og fleiri rætt og ritað um hið nýja greiðsluþátttökukerfi lyfja. Kynningarfundir hafa verið á landsvísu þar sem varpað hefur verið upp glærum af þessu kerfi og það dásamað. Svei mér þá ef þetta fólk hefur ekki fengið extra skammt af gleðitöflum.
Það er ekki hlustað á fólkið sem er hinum megin við borðið. Það er ekki verið að skoða það sem bent hefur verið á varðandi neikvæðu þættina. Það skiptir þetta fólk engu máli þótt upp komi vandamál því glærurnar voru svo flottar.
Á það hefur verið bent af hálfu glærusnillingana að svona séu kerfin í Danmörku og Svíþjóð. Einmitt það. Í þessum löndum er mjög sterkt félagslegt kerfi. Kerfi sem aldrei stillir fólki upp við vegg. Ef fólk lendir t.d í tómu peningaveski er því hjálpað. Grasið er ekki alltaf grænna hinum megin.
Hlutfall á milli lyfjaverðs og bóta er mun hærra hér. Í Danmörku greiðir fólk ekki fyrir læknis - og rannsóknarkostnað og fleira sem kostar vænan skilding hér.
Á Íslandi er ekkert félagslegt kerfi. Hér kunna glærusnillingarnir að segja NEI ! þeir horfa svo í hina áttina og hugsa um flottu glærurnar.
Ekki tapa ykkur í gleðitöfluboxinu. Hlustið á það sem verið er að benda ykkur á.